132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Sjófuglar.

338. mál
[14:48]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í apríl á seinasta ári hélt umhverfisráðuneytið fund með fulltrúa sjávarútvegsráðuneytis og þeirra stofnana sem helst hafa lagt stund á sjófuglarannsóknir, þ.e. Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar kom fram almennur áhugi á að efla sjófuglarannsóknir hér við land í samstarfi þessara stofnana. Ákveðið var að fullvinna stöðuskýrslu um sjófuglarannsóknir og forgangsraða tillögum um rannsóknir.

Fulltrúar stofnananna þriggja hafa síðan sameiginlega sótt um fjármögnun frá Rannís til að endurmeta á þremur árum varpstofna íslenskra bjargfugla. Slíkt mat hefur ekki verið gert í rúm 20 ár. Sú umsókn hljóðaði upp á 7 millj. kr. kostnað á þremur árum, umfram laun og aðstöðu umsækjenda. En heildarkostnaður rannsóknaáætlunarinnar er áætlaður um 18 millj. kr. Jafnframt hafa leiðir til að efla vöktun á stofnbreytingum bjargfugla á Íslandi og nýliðun verið ræddar milli stofnananna.

Krían er langlífur fugl og lengi hefur verið þekkt að varpafkoma er mjög breytileg milli ára. Mörg dæmi eru þekkt um að kríur hafi svæðisbundið ekki komið upp neinum ungum einstök ár og er ekkert nýtt við það. Ástæður afkomubrests hjá kríu hafa ekki verið rannsakaðar beint hérlendis en menn hafa tekið eftir ungadauða sem rekja má til fæðuskorts og vosbúðar. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl fæðuframboðs og varpafkomu og ef framboð fæðu er lítið þurfa foreldrar að vera lengur á veiðum og jafnvel bæði í einu. Litlir kríuungar þola illa fjarveru beggja foreldra því að þeir stjórna ekki líkamshita sínum sjálfir. Þess vegna þarf lítið út af að bera. Kuldi og væta þegar klak er í hámarki getur riðið baggamuninn.

Sumarið 2005 varð vart afkomubrests hjá kríu víða um land. Auk þess var afkoma lunda í Vestmannaeyjum léleg. Lundar sáust bera óvenjuleg fæðudýr í unga sína. Það bendir til þess að framboð sandsílis og ungviðis loðnu og síldar auk ljósátu hafi verið með minna móti. Engar mælingar fara fram á framboði helstu fæðudýra sjófugla sem reyndar eru þau sömu og margra nytjafiska.

Arnþór Garðarsson prófessor hefur hafið vöktun á varpafkomu ritu og ráðgert er að efla þá vinnu í samstarfi Líffræðistofnunar Háskólans, Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa víða um landið. Varpafkoma ritu er auðmælanleg og lýtur líklega sömu lögmálum og afkoma kríuvarps og lundavarps. Mjög takmörkuð vöktun er í gangi á bjargfuglum í dag. Erfitt er að túlka þær niðurstöður á landsvísu. Þau gögn sem liggja fyrir benda þó til töluverðrar fækkunar stuttnefju síðustu 20 ár. Langvíu og ritu fjölgaði lengst af en langvíum fækkaði þó sumarið 2005. Álka stóð í stað. Ekki er vitað hvort sömu breytingar hafa átt sér stað í stóru vestfirsku fuglabjörgunum. Þar verpa 80% langvía og álkna og 90% stuttnefja. Vegna stærðar þessara bjarga eru veruleg aðferðafræðileg vandamál við mat á stofnstærð fuglanna sem kalla á tímafreka úttekt.

Víðtækar rannsóknir hafa farið fram á fæðuvali sjófugla við Ísland og fæða þeirra á öllum árstímum er ágætlega þekkt. Breytileiki í framboði fæðu er hins vegar ekki vaktaður í dag og eru því tengsl fæðuframboðs, afkomu og stofnstærðar lítt þekkt. Mikilvægt er að efla rannsóknir á þessum tengslum og það gæti leitt til þess að nota megi fjölda og afkomu sjófugla sem vísi um ástand hafsins.

Breytingar á fuglastofnum hér og í nágrannalöndum hafa ekki verið tengdar með skýrum hætti við loftslagsbreytingar. Sýnt hefur verið fram á að sveiflur í loftslagi hafi áhrif á afkomu sjófuglastofna. Menn hafa auk þess haft áhyggjur af neikvæðum áhrifum sandsílaveiða á fuglastofna umhverfis Norðursjó og má telja líklegt að lífríki hafsins taki stakkaskiptum ef spár um breytingar á loftslagi á næstu árum ganga eftir. Afleiðingar hækkaðs hitastigs eru flókin ferli og erfitt að spá fyrir um langtímaafleiðingar. Breytt hitastig getur valdið verulegum breytingum á útbreiðslu lífvera, sumar hverfa en aðrar koma í staðinn. Þetta hafa íslenskir vísindamenn m.a. bent á í umfjöllun um nytjastofna sjávar á Íslandsmiðum.