132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Sjófuglar.

338. mál
[14:53]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel þessa umræðu áhugaverða að mörgu leyti og sérstaklega þegar menn ræða ekki aðeins um einn og einn dýrastofn í einu, líkt og í umræðum um þorskveiðar. Þá taka menn einhverja prósentu af stofni en ég tel miklu nær að horfa á lífríkið í samhengi. Ég hef séð það í erlendri vísindaskýrslu að menn sjá sveiflur í fjölda sjófugla og í fiska, og að þessar sveiflur fylgjast að.

Þeir fuglar sem við ræðum um hér lifa á sandsíli. Við vitum einnig, af veiðum undanfarins árs, að ýsu hefur fjölgað gífurlega mikið. Hún étur að einhverju leyti sömu fæðu og sjófuglarnir þannig að það má vera að skýringin á fugladauðanum kunni að vera sú að ýsan aféti kríuna. Það er spurning sem vert er að spyrja sig og ég fagna því að Náttúrufræðistofnun og Hafrannsóknastofnun ætla að vinna saman að lausn þeirrar gátu.