132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Sjófuglar.

338. mál
[14:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Bágt gengi sjófuglastofna við landið er mikið áhyggjuefni. Mér finnst að það geri að verkum að við Íslendingar og íslensk stjórnvöld ættum að íhuga leiðir til að stórauka fuglarannsóknir á Íslandi. Ísland er mikilvæg varpstöð fyrir fjölmargar varpfuglategundir og sjófugla á Norður-Atlantshafi og er hugsanlega um að ræða sóknarfæri fyrir íslenska vísindamenn til að vinna að samstarfsverkefnum t.d. við erlendar rannsóknarstofnanir, á fuglastofnum umhverfis landið.

Ég tel að það sem minnst hefur verið á hér, að fuglarnir hafi átt erfitt uppdráttar, sé einmitt eitt af merkjum um að vistkerfið í hafinu umhverfis Ísland sé í ójafnvægi. Það er eitthvað mikið að og ekki allt með felldu. Hér var minnst á sandsíli, samspil sandsílis og ýsu. Við getum líka minnst á loðnu og hugsanleg tengsl milli loðnuveiða og lélegs gengis þessara fuglastofna. Þannig mætti halda áfram lengi.