132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra varðar fangelsismál, undirbúning nýrrar fangelsisbyggingar nánar tiltekið. Við sem störfum í þessum sal erum minnug þess að í fjárlögum þessa árs er áformað að eyða mörgum milljónum króna til vopnakaupa fyrir lögregluna. Það var deilumál við fjárlagaumræðuna í þessum sal. En það eru tvær hliðar á því máli. Því fleiri fanga sem lögreglan nær að góma því erfiðara verður ástandið í fangelsunum okkar.

Á síðasta þingi samþykkti Alþingi endurnýjaða löggjöf um fullnustu refsinga sem góð sátt var um og er það mitt mat að þar hafi tekist vel til. Það er ekki síst því að þakka að Fangelsismálastofnun hafði unnið og kynnt metnaðarfulla stefnu og framtíðarsýn í málefnum fanga í október 2004. Valtýr Sigurðsson, forstöðumaður Fangelsismálastofnunar, gerði allsherjarnefnd Alþingis grein fyrir stefnunni og í máli hans kom berlega í ljós að sú aðstaða sem föngum og starfsfólki fangelsanna er boðið upp á er að mörgu leyti til skammar og í sumum tilfellum ekki mönnum bjóðandi.

Fjölmiðlar hafa fjallað um málið og leitt fram í dagsljósið starfsfólk fangelsanna sem er allt af vilja gert að sinna skjólstæðingum sínum af fagmennsku og mannúð en aðstaðan sem boðið er upp á meinar þeim að standa sig vel í starfi.

Nú er það ekki svo að stjórnvöld hafi ekki í hyggju að bæta úr og endurnýja fangelsin. Fyrir liggur samkvæmt fjárlögum sem samþykkt voru fyrir áramótin að úrbætur verði gerðar á þessu ári á Kvíabryggju og Akureyri og að einhverju leyti undirbúnar framkvæmdir á Litla-Hrauni. En það sem skortir er að mínu mati tímasett framkvæmdaáætlun um heildaruppbygginguna. Í mínum huga er nauðsynlegt að tryggja að endurbætur þeirra fangelsa sem fyrir eru verði ekki svo tímafrekar eða umfangsmiklar að nauðsynlegar úrbætur á höfuðborgarsvæðinu varðandi nýtt fangelsi verði látnar mæta afgangi og komi svo jafnvel ekki til framkvæmda fyrr en eftir dúk og disk því hvað vitum við nema endurbæturnar við hin fangelsin verði tímafrekari eða dýrari en ráð er fyrir gert í dag.

Ástandið í fangelsismálum á höfuðborgarsvæðinu er óviðunandi. Starfsleyfi Hegningarhússins við Skólavörðustíg rennur út í næsta mánuði. Kópavogsbær hefur endurskipulagt svæðið þar sem fangelsið í Kópavogi stendur svo það verður rifið fyrr en varir. Það er ekki svo að nein eftirsjá sé að því því það húsnæði er ekki síður ófullnægjandi en Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Á fjárlögum yfirstandandi árs var sem sagt ákveðið að setja 50 millj. kr. í tímabundið framlag til endurbóta við fangelsið á Akureyri og síðan á Kvíabryggju.

Ég ítreka þetta sem ég hef sagt um úrbæturnar á höfuðborgarsvæðinu og þykir þess vegna tímabært að bera upp hjálagða fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra en hún er svohljóðandi:

Hvað líður undirbúningi nýrrar fangelsisbyggingar? Hefur verið gengið endanlega frá staðarvali? Er unnið samkvæmt tímasettri verkáætlun?

Hvenær er gert ráð fyrir að starfsemi verði hætt í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og fangelsinu í Kópavogi?