132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:06]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka hér upp málefni fangelsanna. Í þessum málum hefur mjög margt verið að gerast eins og hún nefndi og hæstv. dómsmálaráðherra hefur gefið svör um þessa uppbyggingu. Hins vegar er afar fróðlegt og mikilvægt að við þróum jafnframt ný úrræði í fangelsismálunum. Við sjáum núna uppbygginguna á Kvíabryggju og stækkun þar. Því væri kannski ekki úr vegi að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort við eigum eftir að sjá fleiri slík úrræði því að með þeim tel ég að við fáum út betri einstaklinga að betrun lokinni.

Það gengur náttúrlega mjög illa ef fangelsi á Hólmsheiði er hálfstrand enn þá því að við þekkjum vel umræðuna um þessar miklu keyrslur á Litla-Hraun vegna gæsluvarðhalds. Í því felst líka kostnaður og það er náttúrlega afar brýnt að hraða þessari áætlun.

Varðandi Litla-Hraun þá er líka mikilvægt að bæta úr þar.