132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér kemur á óvart í þessari fróðlegu umræðu um fangelsismál að ekki liggi fyrir tímasetning um endalok Hegningarhússins við Skólavörðustíg. Það eru vonbrigði vegna þess að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hefur í áratugi stappað nærri því að vera hneyksli og vakið alþjóðlega athygli. Við höfum í raun verið á einni allsherjarundanþágu með þetta hús nokkuð lengi þó þar muni hafa verið gerðar einhverjar bráðabirgðaúrbætur nýlega.

Þar er auðvitað ekki aðeins, þó mikilsverðast sé, um aðstæður fanganna að ræða og heimsóknarvina þeirra heldur auðvitað líka það að þarna er hús sem borgarfulltrúar í Reykjavík vita að skiptir miklu máli fyrir sögu Reykjavíkur og mundi skipta miklu máli fyrir það nágrenni þar sem það stendur, en þar eru nú að glæðast verslunar- og samskiptagötur miklar og mjög brýnt að þetta hús komist sem fyrst í brúk fyrir Reykvíkinga og úr höndum dómsmálaráðuneytisins.