132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Það er gott að unnið er af krafti í málinu og að verkefnisstjóri skuli vera kominn í málið. Mér sýnist þetta vera á borðum hæstv. ráðherra. En mér finnst ekki ásættanlegt að ekki sé komin tímasett áætlun um þetta verk. Við vitum ekkert hvort áframhaldandi undanþága fáist á Skólavörðustígnum. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er búið að vera árum saman á undanþágu og það er veruleg þörf fyrir úrbætur.

Það að orðvar maður eins og fangelsismálastjóri skuli segja við allsherjarnefnd Alþingis að aðstaða fanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg sé að mörgu leyti ekki mönnum bjóðandi er svo alvarleg yfirlýsing að það hlýtur að verða að taka á af miklu meiri krafti og myndugleika en hæstv. dómsmálaráðherra er að gera í þessu máli núna.

Fleiri ástæður eru fyrir því að það ríður á að fá öflugt fangelsi á Reykjavíkursvæðinu. Það er vegna þess að það er mjög óheppilegt talið af sérfræðingum sem í þessum málaflokki starfa að gæsluvarðhaldsfangar skuli vistaðir innan um afplánunarfanga. Allsherjarnefnd hefur talað mjög skýrt í nefndarálitum sínum frá síðasta þingi um þetta mál. Ástæðan fyrir því að ekki voru gerðar frekari breytingar á lagafrumvarpi hæstv. ráðherra um fullnustu refsinga var sú að allsherjarnefnd sá að húsakostur fangelsanna býður ekki upp á þá lagabreytingu sem nefndin gjarnan vildi gera varðandi málefni gæsluvarðhaldsfanga. Þetta eru svo alvarleg mál að menn hljóta að verða að taka á honum stóra sínum í þessum málum. Ég kalla enn eftir því og hvet hæstv. ráðherra til þess að setja niður tímasetta áætlun þannig að allir sem í þessum málaflokki starfa viti hvers er að vænta á næstu tveimur eða þremur árum.