132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:19]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mikið mál og erfitt að svara því hér á skömmum tíma. Engar rannsóknir liggja fyrir um að það að sakborningur og verjandi séu viðstaddir skýrslutöku leiði til þess að ekki sé sakfellt í máli. Það hefur hvergi hefur komið fram nein niðurstaða sem byggir á rannsóknum sem rökstyður það.

Varðandi breytinguna sem gerð var á lögunum 1999 þá er það svo, eins og fram kom, að lögunum um meðferð opinberra mála var breytt og það var talið börnum til hagsbóta til að þau þyrftu einungis einu sinni að koma fyrir dóm og gefa skýrslu í stað þess að þurfa að mæta ólíkum aðilum oft og rifja upp sama málið. Það að þessir aðilar séu viðstaddir sem fyrirspyrjandi nefndi er í samræmi við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og við getum ekki gengið fram á þann veg í þessum málum að við göngum gegn þeim sáttmála.

Ég tel líka að það sé ekki rétt sem kemur fram í fyrirspurninni, sem fyrirspyrjandi gefur sér, að hér sé sú þróun að meiri hluti skýrslna af börnum séu teknar í dómshúsi og minni hluti í Barnahúsi. Ég hef ekki tölur sem sýna þetta og ég veit ekki hvaðan þessar fullyrðingar eru komnar og á hverju þær byggjast. Þeir sem að þessum málum starfa á vegum dómsmálaráðuneytisins telja að þarna sé kannski jafnt á komið ef það eru þá ekki fleiri yfirheyrslur sem fara fram utan dómsalanna. Yfirheyrsla á barni er dómsathöfn og það er því dómari sem hefur forráð á því hvar sú yfirheyrsla fer fram. Hæstiréttur hefur ítrekað staðfest að sá háttur sem t.d. dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur hafa haft standist fyllilega kröfur laganna um skýrslutöku.

Þegar rætt er um þetta má velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að rífa barnið úr umhverfi sínu úti á landi og flytja það í Barnahús ef yfirheyra þarf það út af slíku máli. Ég hef heimsótt héraðsdómstóla víða um land þar sem búin hefur verið sérstök aðstaða til þess að taka skýrslur af börnum við þessar aðstæður. Ég tel að í ýmsu tilliti sé það skynsamlegri háttur að nýta þá aðstöðu í heimabyggð heldur en að gera kröfu til þess að þessi börn séu flutt til Reykjavíkur í Barnahús til skýrslutöku. Þetta verða menn að hafa í huga þegar um þessi mál er rætt og menn velta þessum þáttum fyrir sér. Mestu máli hlýtur að skipta að rétt sé staðið að málum og að málsmeðferð sé vönduð eins og lög gera ráð fyrir.

Lögin um meðferð opinberra mála eru til endurskoðunar og þar er að sjálfsögðu farið yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið frá því að breytingin var gerð 1999 á lögunum um meðferð opinberra mála og önnur sjónarmið sem fyrir liggja. Það verður tekin afstaða til þeirra við endanlega gerð frumvarpsins og síðan verður málið náttúrlega rætt í þinginu og þá hafa þingmenn tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Varðandi þá fullyrðingu sem kemur fram í lokaspurningunni um að kynferðisbrotamálum hafi fjölgað verulega á síðustu árum þá liggja núna fyrir nýjar tölur, Afbrotatölfræði 2004 frá ríkislögreglustjóra, og þar kemur fram að brotum sem varða blygðunarsemisbrot og kynferðisbrot hafi fækkað 2004. Slíkum brotum fjölgaði nokkuð árið 2000 og síðan aftur árið 2003 en fækkaði verulega árið 2004 þannig að ekki er rétt að segja og halda því fram að það sé einhver stígandi í þessu, þetta er mismunandi á milli ára, það er alveg greinilegt.

Í skýrslu ríkissaksóknara segir, með leyfi forseta:

„Málum er varða kynferðisbrot, einkum nauðgunarmálum, fjölgaði mjög árin 2002 og 2003 en fækkaði á árinu 2004. Árið 2004 bárust ríkissaksóknara 43 mál í þessum brotaflokki, þar af leiddu 10 mál til ákæru eða innan við fjórðungur málanna. Einu máli var vísað aftur til lögreglu til frekari rannsóknar. Af þeim 10 málum sem ákært var í var sakfellt í fjórum málum en sýknað í þremur. Þremur málum er enn ólokið í héraðsdómi.

Hlutfall niðurfelldra mála og sýknudóma er hátt í þessum málaflokki.“

Það á ekki heldur að alhæfa á þann veg eins og gert er í 4. spurningu hv. þingmanns um þessi mál, það verður (Forseti hringir.) að skoða þau á grundvelli þeirra rannsókna sem fyrir liggja.