132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:25]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka upp þetta brýna mál. Við eigum að gera það með reglubundnu millibili hér.

Mig langar líka að benda aðeins á varðandi þessa fyrirspurn að vandinn liggur í Reykjavík, hann liggur nefnilega ekki úti á landi. Hann liggur eiginlega í því að dómstólarnir í Reykjavík eða dómshúsið nýta ekki Barnahúsið. Það er fyrst og fremst Héraðsdómur Reykjaness sem nýtir það, hann er með öll sín mál í Barnahúsi.

Það er eitt sem er afar mikilvægt að hafa í huga, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á og ég vil nefna hér, að varðandi læknisrannsóknir þá er Barnahúsið eini sérhæfði staðurinn til að skoða lítil börn. Við getum rétt ímyndað okkur hvað það er vandasamt mál eftir kynferðislega misnotkun á alveg niður í tveggja ára gömlum börnum. Ég veit að við erum fyrirmynd annars staðar, við erum líka fyrirmynd í Bandaríkjunum, við erum að gera alveg ótrúlega góða hluti. Mér finnst því alveg spurning um að einhver rýnihópur vinni áfram með hæstv. dómsmálaráðherra varðandi það (Forseti hringir.) sem verið er að ströggla um hér.