132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:27]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra ber fyrir sig 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu varðandi það að meintur sakborningur og verjandi hans eigi að fá að vera viðstaddir skýrslutöku af barni í meintu ofbeldismáli gegn því. Ég vil segja það hér og gefa hæstv. ráðherra þá leiðsögn að það sé í hæsta máta óeðlilegt að meintur ofbeldismaður, meintur barnaníðingur og verjandi hans séu viðstaddir yfirheyrslu yfir barninu sjálfu, meintu fórnarlambi ofbeldismannsins, áður en ofbeldismaðurinn sjálfur gefur skýrslu. Það er ekki þannig sem 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu var hugsuð. Henni var ekki ætlað að auðvelda barnaníðingum að hagræða málflutningi sínum þannig að þeir geti tekið mið að málflutningi barnsins við sinn málflutning. Hæstv. ráðherra verður að skilja þetta. Þetta er í grundvallaratriðum misskilningur. Auðvitað geta sakborningar og verjendur þeirra verið viðstaddir eða hlustað á skýrslu fórnarlambsins eftir að (Forseti hringir.) ofbeldismaðurinn sjálfur er búinn að gefa sinn vitnisburð.