132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Háskólanám sem stundað er í fjarnámi.

183. mál
[15:50]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér fannst þetta vont svar hjá hæstv. menntamálaráðherra. Hún notaði nær allan sinn tíma til að rekja upplýsingar um hluti sem ekkert var spurt um og koma þessu máli ekkert við.

Það er nokkuð ljóst að það vantar skilning hjá hæstv. menntamálaráðherra á mikilvægi þess að efla tækifæri fólks um allt land til að mennta sig eða þá það vantar viljann hjá hæstv. ráðherra til að gera það sem til þarf. Það er ekki aðeins á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri sem fólk þarf að mennta sig, það er um allt land. Það er skylda okkar og nauðsynlegra en nokkuð annað til framtíðar að gefa Íslendingum um allt land færi á að mennta sig.