132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

216. mál
[16:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eins og ég gat um áðan stendur yfir þessi endurskoðun á námskránni sem að koma ýmsir aðilar, að meginhluta til fagfólk, sem m.a. hefur fengið það hlutverk af minni hálfu að fara sérstaklega yfir það hvernig hægt sé að efla lífsleiknina með tilliti til þess hvernig hægt er að koma fyrir þessari auknu fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að skilaboðin séu skýr. Ég er ekki viss um endilega að það þurfi að vera í lögum. Þau geta verið í námskránni eins og við erum að gera með ýmsa aðra þætti.

Ég tel skipta líka miklu máli, og það tengist svari við fyrirspurn frá hv. þingmanni frá því fyrir jól, að Kennaraháskólinn og kennslustofnanirnar eru líka markvisst að taka á þessum málum, þ.e. hvernig hægt sé að auka fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í fræðslustefnu sinni, í námskrám sínum. Það skiptir því máli að hugsa um heildarmyndina, öll skólastigin, en um leið líka þá sem stærstu aðkomuna hafa varðandi börnin og það eru að sjálfsögðu kennararnir, að þeir séu vel menntaðir og vel undirbúnir til þess að geta tekist á við þau dapurlegu tilvik sem tengjast kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.