132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum haft áhyggjur af veikri stöðu Fjármálaeftirlitsins. Það hefur eiginlega heyrt beint undir viðskiptaráðherra. Viðskiptaráðherra er líka ráðherra bankamála og stóð fyrir einkavæðingu og sölu bankanna, sem Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit með þótt það heyrði undir sama ráðherra. Við höfum því lagt til á Alþingi að kannað verði hvort ekki sé réttast að færa Fjármálaeftirlitið undir Alþingi þannig að sjálfstæði þess verði tryggt frá framkvæmdarvaldinu. Ég tel það mikilvægan kost.

Fjármálaeftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir linkind. Skemmst er að minnast þess að Bjarni Ármannsson lýsti á fundi í janúar fyrir ári áhyggjum sínum af því að Fjármálaeftirlitið nyti ekki þeirrar virðingar sem því ber og sumir markaðsaðilar, eins og hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: „... færu oft inn á grá svæði, og það jafnvel viljandi.“ Þetta sagði einn aðalbankastjóri landsins um stöðu Fjármálaeftirlitsins.

Við hefðum dæmi um að ef einstakir forstöðumenn hafa ætlað að sýna sjálfstæði í störfum þá hafi stofnanir verið lagðar niður, þeim sagt upp eða látnir hætta, dæmi um þetta eru Þjóðhagsstofnun og Samkeppnisstofnun.

Þá er spurningin: Hvaða viðbrögð ætlar hæstv. viðskiptaráðherra að sýna Fjármálaeftirlitinu þegar það reynir að reka af sér slyðruorðið, standa undir nafni og sinna þeirri eftirlitsskyldu sem því er falin samkvæmt lögum? Ætlar viðskiptaráðherra að standa við bakið á Fjármálaeftirlitinu, veita því nægar heimildir og stuðning til að hafa nauðsynlegt eftirlit með fjármálamarkaðnum og veita honum aðhald sem allir telja þarft? Þetta er afar brýnt frú forseti. Ætlar hæstv. ráðherra kannski bara að láta nýráðinn forstöðumann Fjármálaeftirlitsins, sem reynir að reka slyðruorðið af því embætti, hætta fyrir að ætla að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum? Eða ætlar hann að bakka hann upp?