132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:44]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Hæstv. ráðherra segir að verið sé að endurskoða lögin og vænta megi þess að lög verði sett um þetta í vor. Ég spyr hæstv. ráðherra: Dugir það Fjármálaeftirlitinu? Hefur hæstv. ráðherra sett sig í samband við Fjármálaeftirlitið og spurt hvort það dugi því að bíða fram á vor eftir því að slík lög taki gildi?

Þeir báðu 1. nóvember um tafarlausa lagaheimild í þessu efni. Þeir eru með rannsókn í gangi vegna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og ég spyr: Dugir það? Mér þykir ráðuneytið ansi svifaseint í þessu efni og ég spyr: Ef það er fleira undir í breytingum á þessum lögum, er þá ekki hægt að taka þennan eina þátt út úr til að Fjármálaeftirlitið fái þá lagaheimild sem þeir hafa kallað eftir?

Fjármálaráðuneytið kallar ekki svo oft eftir lagaheimildum. Það hlýtur að vera brýnt þegar beðið er um tafarlausa lagaheimild í þessu efni. Fjármálaeftirlitið kallaði í fyrra líka eftir heimild til að beita stjórnvaldssektum þegar um væri að ræða markaðssvik, t.d. ef viðskipti væru með verðbréf á grundvelli innherjaupplýsinga. Ég sé ekki að ráðherrann hafi orðið við því ákalli Fjármálaeftirlitsins. Ég spyr: Er verið að endurskoða þetta í lögunum? Munum við sjá ákvæði í frumvarpi frá ráðherra um að hægt verði að beita stjórnvaldssektum þegar um er að ræða markaðssvik?

Ég nefni líka ákvæði um að lengja eignarhaldstíma hlutabréfa, í þeim tilvikum sem stjórnendur fjármálafyrirtækja maka krókinn og græða hundruð milljóna á kaupum á hlutabréfum í þeim fyrirtækjum sem þeir starfa hjá, sem er auðvitað ekki annað en siðlaus fjármálagerningur. Á þessu verður að taka, m.a. með lengingu á eignarhaldstíma slíkra bréfa. Ég nefni þetta af því að ráðherrann talar um að það sé verið að endurskoða lögin. Munum við sjá þessi ákvæði í þeim lögum sem ég nefndi og hefur Fjármálaeftirlitið sæst á að bíða eftir lagasetningu fram á vor um þessi mál?