132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:46]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það að hér er mikill stuðningur við Fjármálaeftirlitið. Ég held að mikilvægt sé að svo sé vegna þess að það gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnsýslu okkar. Það hlutverk verður æ mikilvægara með þeirri öru þróun sem er á fjármálamarkaði og kaupum Íslendinga á bönkum í fjármálafyrirtækjum erlendis sem eykur enn á verkefni og skyldur hinnar mikilvægu stofnunar. En ég geri eiginlega kröfu til að hv. þingmenn hlusti þegar talað er til þeirra en mér fannst það að minnsta kosti ekki vera með hv. þm. Ögmund Jónasson þegar hann talar um að ekki eigi að verða við þessari beiðni. Það er alveg af og frá að halda því fram vegna þess að eins og kom fram í máli mínu erum við að vinna frumvarp í ráðuneytinu og höfum reyndar verið að því síðan í haust og áður en þetta bréf barst hafði sú vinna hafist. Sú vinna gengur fyrst og fremst út á að styrkja eftirlitsheimildir. Það sem kemur fram í bréfinu umrædda gerir í sjálfu sér það að verkum að fara þarf betur yfir úrskurði kærunefndarinnar því Fjármálaeftirlitið heldur því fram og telur sig hafa þessar heimildir. Hins vegar kemst úrskurðarnefndin að annarri niðurstöðu. Þetta gerir það að verkum að ráðuneytið þarf að vanda sig alveg sérstaklega í þessu máli.

Ég geri mér grein fyrir að frumvarpið mun fá greiðan gang í gegnum hv. Alþingi og það er mikilvægt að finna þennan mikla stuðning. Þess verður ekki langt að bíða að frumvarpið birtist.