132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:25]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Margar athyglisverðar ábendingar hafa komið fram og að sjálfsögðu verða þær skoðaðar í samgöngunefnd. Áður hefur verið rætt um þann þátt ferðamála í samgöngunefnd sem snýr að bílaleigubílum og hvað það hefur færst í vöxt að erlendir ferðamenn taki bílaleigubíla og ferðist þannig um landið. Mig minnir að einhvers staðar hafi komið fram að rúmlega 60% ferðamanna sem stoppa hér um einhvern tíma taki bílaleigubíl frekar en að ferðast í hópbifreiðum.

Það skiptir því verulegu máli, eins og hæstv. samgönguráðherra kom hér inn á, að fyllsta öryggis sé gætt. Jafnframt þurfum við að gæta þess, eins og kom fram hjá ræðumanni hér áðan, að ekki verði komið á fót eftirliti með eftirlitinu. En það er engu að síður mjög nauðsynlegt að vel sé að verki staðið varðandi öryggisþáttinn. En ákveðið vandamál getur komið upp hvað snertir íbúana eins og kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra og í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um þann vanda sem skapast ef útstöðvar eða starfsstöðvar stærri bílaleigna eru í minni plássum. Að mörgu er að hyggja í því. En fyrst og fremst fagna ég frumvarpinu og einmitt því hve þungt öryggisþátturinn vegur. Eins og við vitum eru einbreiðar brýr allt of margar á þjóðvegi nr. 1 og of margir malarvegir þar sem erlendir ferðamenn þekkja lítt til. Því hefur verið mætt með ágætri útgáfu bókar Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem ferðamönnum er veitt nokkuð góð tilsögn og varað við fjölmörgum hættum sem fylgja akstri á þjóðvegum og öðrum vegum landsins, sérstaklega þá malarvegum.

En þetta er, eins og ég sagði áðan, hið besta mál þar sem mikil áhersla er lögð á öryggisþáttinn.