132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Hafnalög.

380. mál
[14:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hafnir, nr. 61/2003. Markmiðið með breytingunni er að auðvelda aðlögun hafna að nýjum hafnalögum. Hafnalögin gera ráð fyrir breytingum og styrkjum til hafna þegar á árinu 2007, samanber bráðabirgðaákvæði með þeim. Margt mælir hins vegar með því að gildistími bráðabirgðaákvæðisins verði framlengdur hvað þetta varðar. Fjárútlát ríkisins munu þó ekki verða umfram það sem núgildandi áætlanir í ríkisfjármálum gera ráð fyrir því miðað er við ákveðin skilyrði fyrir breytingu á ákvæðinu. Skilyrðin eru tvenns konar.

Annars vegar að hafnarframkvæmdum sem þegar hafa verið ákveðnar verði frestað frá árinu 2005–2006 til áranna 2007–2008. Þegar hefur verið ákveðið að fresta framkvæmdum fyrir 200 millj. kr. sem fyrirhugaðar voru á árunum 2006 til ársins 2007. Breytingin kæmi sér vel fyrir bæði efnahagslífið sem heild, hefði æskileg áhrif á þá þenslu sem nú er, og einnig fyrir hafnir sem eiga erfitt með að fá verktaka til starfa af sömu ástæðu.

Einnig er rétt að geta þess að þetta er að sjálfsögðu gert í góðri samvinnu við hafnarstjórnir. Þær hafa óskað eftir að í vissum tilvikum verði hægt á framkvæmdum vegna mikillar þenslu á markaði.

Hins vegar verði leyfilegt að beita ákvæði með hliðsjón af jafnsetningu hafna, þ.e. þær breytingar sem ákveðnar voru með hafnalögum, nr. 61/2003, komi með sem líkustum hætti við einstakar hafnir. Forsenda þess að hægt sé að beita ákvæðinu er að við gerð samgönguáætlunar fyrir árin 2007–2010 liggi fyrir endurskoðuð áætlun um jafnsetningu hafna og þá með tilliti til staðalkrafna til viðkomandi hafnar og ástands hafnarmannvirkja.

Í gildandi samgönguáætlun lúta flest jafnsetningarverkefnin að endurnýjun gamalla viðlegukanta. En sú endurnýjun sem nú á sér stað í fiskiskipaflotanum gerir ekki síður kröfur um að jafnsetning nái til dýpis í höfnum og innsiglingu. Þróunin í fiskiskipaflotanum hefur verið sú að skipin verða djúpristari og þar af leiðandi verður að taka tillit til þess. Þá má einnig nefna að í kjölfar sameiningar sveitarfélaga og breytinga á útgerðarmynstri á landsbyggðinni hafa óskir og áherslur nokkurra hafnarstjórna um endurbyggingarverkefni breyst frá því sem lagt var upp með við gerð samgönguáætlunar 2005–2008, og m.a. þess vegna þarf að endurskoða þá jafnsetningaráætlun sem fram kemur í samgönguáætlun fyrir árin 2005–2006.

Í fylgiskjali 1 með frumvarpi þessu er tafla yfir framkvæmdir og áætlaða ríkisstyrki á árunum 2006–2008, miðað við að frumvarp þetta verði að lögum. Sá fyrirvari er hér gerður að taka gæti þurft tillit til breyttra óska hafnarstjórna fram að samþykkt samgönguáætlunar 2007–2010. Þannig gæti þessi framkvæmdalisti tekið einhverjum breytingum en þó ekki þannig að heildarfjárhæðir breytist. Ég tel afar mikilvægt að hv. þingmönnum sé þetta ljóst og að sjálfsögðu yrði fjallað um það í samgöngunefnd þegar þar að kæmi ef frekari breytingar yrðu gerðar á þessum framkvæmdaáformum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.