132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Rannsókn sjóslysa.

412. mál
[14:46]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu þannig að ekki sé neinn misskilningur á ferðinni. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að þegar við tókum ákvörðun um það, með breytingum á lögum um rannsóknarnefnd flugslysa á sínum tíma, að setja forstöðumanni þeirrar rannsóknarnefndar tiltekinn ramma, þá leiddi það af sjálfu sér að við yrðum að meðhöndla forstöðumann rannsóknarnefndar sjóslysa með sama hætti. Sá kostnaður sem hér um er að ræða er fyrst og fremst munurinn á kostnaði vegna forstöðumannsins fyrir og eftir en viðbótarstarfsmaður hefur þegar verið ráðinn hjá nefndinni. Við teljum í ráðuneytinu að að öðru leyti geti starfsemin með þessum fyrirhuguðu starfsmönnum rúmast innan rammans sem við höfum fyrir nefndina og þar af leiðandi þurfi ekki frekari fjárveitingar nema viðbótarverkefni komi til.