132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

16. mál
[15:15]
Hlusta

Flm. (Hlynur Hallsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka umræðurnar þótt stuttar hafi verið. Það vekur reyndar athygli mína að það eru aðeins fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem taka til máls. Ég sakna fulltrúa stjórnarflokkanna úr menntamálanefnd í þingsalnum í dag til að ræða þetta. Ég ætla að vona að það sé ekki vegna áhugaleysis þeirra á þessu brýna máli.

Ég get tekið undir að það yrði mikil stefnubreyting ef lánasjóðurinn tæki upp þá stefnu að styrkja fólk í framhaldsnámi en ekki eingöngu háskólanámi en eitthvað verður að gera. Ég held að við ættum að skoða vel t.d. það kerfi sem er í Danmörku. Talsvert fleiri einstæðir foreldrar mundu treysta sér í framhaldsnám ef einhverjir slíkir styrkir væru fyrir hendi. Ég vona sem sagt að þetta mál fái skjóta framgöngu. Það er mín einlæg ósk því að ekki veitir af að styðja við einstæða foreldra á þessu sviði.