132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[15:33]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Fyrsti flutningsmaður þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fór vel yfir efni tillögunnar og ástæður þess að hún er flutt á Alþingi. En eins og fram kom hjá honum snýst tillagan um að komið verði á fót fiskverndarsvæðum við Ísland. Margur gæti látið sér detta í hug að spyrja: Til hvers að tala um að setja upp fiskverndarsvæði á hafsvæðum þar sem fiskveiðar eru víðast undirstaða efnahagslífs? Margir gætu haldið að þetta tvennt mundi ganga hvort gegn öðru, að fiskveiðar og fiskvernd með fiskverndarsvæðum geti ekki farið saman. En það er öðru nær. Tæknin til veiða er alltaf að verða fullkomnari, afl þeirra skipa sem stunda veiðar hefur aukist, tæki og veiðarfæri eru betri og tækni við gerð veiðarfæra hefur þróast verulega frá því sem áður var. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir fisk sem mikið er sótt í að eiga sér griðlönd sem fiskurinn getur forðað sér inn á frá mikilli sókn og átt vísan frið um lengri tíma.

Ásókn í fiskstofnana hefur aukist gífurlega. Getan til að veiða hefur gert það líka. Fiskur á Íslandsmiðum fær í raun hvergi frið. Við höfum reyndar séð að svæðum hafi verið lokað og ákveðið að banna þar veiðar um tiltekinn tíma. En oftast er það í tiltölulega stuttan tíma. Hér er verið að tala um svæði á nokkuð mörgum stöðum hringinn í kringum landið þar sem veiðar yrðu bannaðar alfarið í nokkuð langan tíma meðan í ljós kæmi hvort slík svæði geti haft áhrif á að byggja upp fiskstofna og veita fiski sem mikið er sótt í frið í ákveðinn tíma. Auðvitað þýddi það að við yrðum að stunda miklar rannsóknir á því á sama tíma hvort þetta hefði áhrif eða ekki. Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að árangurinn af þessu yrði metinn og fylgst með á hverju ári. Menn tækju sig sérstaklega til og skoðuðu eftir fimm ár hvort þetta hefði skilað raunverulegum árangri en gæfu tilrauninni tíu ára líftíma svo sjá megi hvernig til tekst.

Við höfum séð, eins og fram kom í síðustu ræðu, hver reynsla annarra er af því að gera slíkt hið sama. Sú reynsla hefur yfirleitt verið góð. Hið góða við þessa tillögu er að hér er stungið upp á leið til að auka fiskvernd og friðun á fiski sem hvorki kostar mikla peninga, orku né felur í sér áhættu fyrir veiðisvæði eða fiskstofna. Okkur hefur gengið afskaplega illa að byggja upp helstu nytjastofna okkar í kringum landið og nefni ég sem dæmi þorskstofninn. Þetta tæki í vopnabúr þeirra sem vilja með ábyrgum hætti reyna að byggja upp fiskstofna við Ísland mundi hjálpa þeim sem stýra fiskveiðum talsvert í því starfi.

Eins og ég sagði áður höfum við reynslu af friðun ákveðinna svæða í stuttan tíma. Við þekkjum hið árlega hrygningarstopp fyrir Suðvesturlandi þar sem menn vernda fiskinn meðan hann hrygnir. Við þekkjum líka að ákveðnum svæðum er lokað vegna þess að smáfiskur hafi farið umfram þau mörk sem leyfilegt er í afla skipa. Þeim er lokað í stuttan tíma og fylgst með og þau opnuð aftur þegar smáfiskur hefur hopað af svæðinu eða hlutfall hans er ekki lengur yfir viðmiðunarmörkum. Í þriðja lagi þekkjum við dæmi um að tímabundið sé ákveðið að friða tiltekin svæði sérstaklega fyrir togveiðarfærum. Ég held að allir sem verið hafa á sjó hafi bæði tekið þátt í, fylgst með og frétt af því sem gerist þegar slík hólf eru opnuð aftur. Raðir af togurunum eða trollskipunum bíða á línunni þar sem hólfið byrjar eftir því að það verði opnað á ný. Yfirleitt er þar bullandi fiskirí í ákveðinn tíma eftir að hólfið er opnað aftur. Þegar búið er að skarka á því fram og aftur í ákveðinn tíma rýrnar það aftur og fiskiríið minnkar. Bátarnir tínast þá eitthvert annað.

Maður veltir fyrir sér hvað mundi gerast á þessum svæðum ef við lokuðum slíkum hólfum um lengri tíma. Fiskurinn fengi þar frið til að vaxa og dafna. Eins og fram kom í ræðu Össurar Skarphéðinssonar virðist bæði lífmassi, nýliðun og ástand fisks á svona svæðum miklum mun betra en annars staðar í kring. Eftir ákveðinn tíma hlýtur fiskur að fara af verndarsvæðunum og út á þau svæði þar sem heimilt er að veiða hann og mundi þannig styrkja veiðanlegan fiskstofn í þeim tilvikum. Sumir hafa gengið svo langt að þeir vilja mynda þessi verndarsvæði með því að sökkva á þeim skipum sem ekki eru lengur í notkun. Það hefur verið gert víða í heiminum til að koma í veg fyrir að trollbátar eða togskip geti stundað veiðar á þeim svæðum. Menn hafa líka komið fyrir manngerðum steypuklumpum og slíku, hindrunum, til að búa til eða byggja upp rif í staðinn fyrir náttúruleg rif sem togarar hafa brotið niður með þungum veiðarfærum sínum. Það verður að segjast eins og er, að í flestum tilvikum virðast þessar aðferðir skila árangri. Fiski á þeim svæðum sem um er að ræða fjölgar. Þetta virðist því skipta verulegu máli til lengri tíma litið.

Ég held, frú forseti, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, að kostnaðurinn við slíka tilraun væri hverfandi. Við grípum oft til aðgerða til að reyna að friða fisk. Við grípum oft til aðgerða til að reyna að byggja upp fiskstofna, sem hafa kannski ekki svo djúpstæðan vísindalegan grunn. Það má kannski segja að það sem hér er lagt til byggi ekki á slíkum grunni heldur. Þó má benda á nokkra staði þar sem svona aðgerðir virðast skila árangri. Það er engin áhætta í þessu fólgin. Sé eingöngu um að ræða að loka ákveðnum hólfum og friða í ákveðinn tíma þá er ekki um óafturkræf áhrif að ræða, eins og það er kallað. Við gætum hvenær sem er ákveðið að hætta við þessa tilraun, telji menn hana ekki skila nægilega miklum árangri. En við skemmum ekkert og skiljum ekkert eftir.

Rannsóknir eru að sjálfsögðu undirstöðuatriði í þessu. Við verðum og eigum, miðað við ástand fiskstofnanna, að leita allra leiða, m.a. með fiskverndarsvæðum, til að reyna að byggja þá aftur til þess horfs sem áður var.