132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[15:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel þessa umræðu mjög þarfa og í rauninni mjög gott mál að menn velti fyrir sér þeim spurningum sem velt er upp í þingsályktunartillögunni. En ég er ekki endilega viss um að afraksturinn af þessum fiskverndarsvæðum verði þannig að nýting fiskstofnanna muni aukast. Ég hef vissar efasemdir um það. En það er margt jákvætt. Það sem er fyrst og fremst jákvætt við þingsályktunartillöguna er að menn spyrja gagnrýnna spurninga og horfa á lífríkið sem eina heild þar sem dýrastofnar sveiflast og eru í samhengi við hverja aðra. Þetta er allt annað sjónarhorn en er t.d. haft á Hafrannsóknastofnun. Þar er nýtingarstefnan mjög einkennileg. Þar er horft á hvern og einn fiskstofn eða fisktegund sér. Til dæmis með þorskstofninn þá taka menn alltaf 25% af ákveðnum aldri stofnsins og segja: Það á að veiða þann hluta stofnsins. Menn halda að hann vaxi bara eins og eitthvert exel-línurit upp á við ef tekið er ákveðið hlutfall af stofninum alveg óháð fæðu. Það sem er einmitt jákvætt við þessa þingsályktunartillögu er að menn horfa á lífríkið sem eina heild og velta fyrir sér innbyrðis samhengi hlutanna.

Ég las skýrslu um daginn þar sem gerður var samanburður á norskum og íslenskum sjávarútvegi. Það sem var talið íslenskum sjávarútvegi mjög í óhag var að mikil sveifla var á einum helsta nytjastofni Íslands og að hann drægist saman. Það var talið honum til lasts að hann hefði dregist svo saman. En það sem var talið jákvætt í skýrslunni var að aðrir stofnar hefðu einhvern veginn vegið þessar breytingar upp. Menn horfðu sem sagt á fiskstofnana eins og eitthvert hagfræðimódel þar sem var jákvætt að fiskarnir streymdu í jafnri röð inn á færibandið en tóku ekkert tillit til líffræðinnar, ekkert tillit til þess að fiskstofnar sveiflist. En þetta er ekki eins og að fá eitthvert hráefni inn á færibandið. Við erum einfaldlega háð sveiflum í náttúrunni og það er eitt sem menn verða að fara að átta sig á.

Við ræddum í gær um nýtingu Arnarfjarðar. Þar kom á daginn að fiskstofn hafði horfið, rækjustofninn, sem getur ekki synt í burtu, þrátt fyrir að farið væri að ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar. Og það sem er svo einkennilegt við það var að þeir höfðu m.a. leyft að auka veiðar innan ársins. En allt kom fyrir ekki. Þegar menn horfa einungis á einn stofn í einu en ekki á samhengi hlutanna, þá fer illa. En í stað þess að auka veiðar á þeim tegundum sem voru að éta upp rækjuna — það var ekki gert — var ákveðið að fóðra afræningja. Þetta er náttúrlega voðalega einkennileg sýn á hlutina.

Það sem kannski er gagnrýnisvert í tillögunni er að menn horfa á lífmassann, að hann sé eitthvert atriði. Það sem við eigum að horfa á sem fiskveiðiþjóð er hver afraksturinn er, hverjir vextirnir eru á höfuðstólnum. Það er ekkert vit í því að friða fisk sem ekki er að vaxa.

Við höfum dæmi um það. Gerð var athugun í fyrra á því að alltaf var verið að loka svæðum, t.d. inni í Breiðafirði. Þar var fiskurinn ekkert að vaxa en hann var lítill og orðinn gamall. Í stað þess að veiða hann var öllu lokað. Það hefði verið miklu nær að horfa á nýtingu fiskstofna út frá afrakstrinum en ekki endilega hafa lífmassann sem mestan. Ég er alveg á því að það sé ekki skynsamlegt.

Menn verða líka að gæta að ýmsum tilraunum sem vitnað er til, t.d. græningja sem eru einfaldlega á móti veiðum og vilja friða sem mest af hafsvæðum, friða hvali, friða hafsvæði, eru á móti veiðarfærum og finna veiðum allt til foráttu. Þess vegna ber að gjalda ákveðinn varhuga við ýmsu sem borið er á borð sem rök í þessu máli.

Til dæmis má draga það mjög í efa þegar menn fá niðurstöður sem sýna bæði meiri lífmassa og eldri og stærri fiska. Hvers vegna er það? Jú, fyrir hvert þrep í lífkeðjunni tapast orka, það tapast allt að 90% af orkunni. Við það að minni fiskur er étinn af stærri tapast 90% af orkunni í litla fiskinum. Þetta eiga fiskeldismenn að vita sem hér eru í salnum, meira að segja við eldi tapast allt að 70% af orkunni.

Ég er á því að þetta dæmi gangi einfaldlega ekki upp að vera bæði með eldri fiska og meiri lífmassa. Mér finnst það vera mjög vafasamt fljótt á litið og hefði þess vegna kosið að skoða það dæmi frekar. Það er eitt af því sem er gagnrýnisvert í fiskveiðistjórninni á Íslandi að menn eru alltaf að horfa á höfuðstólinn í staðinn fyrir að horfa á hvað fiskurinn er að bæta við sig. Það á landinn að taka. Það er það sem við eigum að taka en það skiptir minna máli hvort þorskstofninn sé reiknaður, vil ég segja, milljón tonn eða 500 þúsund tonn. Spurningin er um hvað hann vex. Ef vöxturinn er í lagi þá eigum við að taka það. En það skiptir minna máli akkúrat hver höfuðstóllinn er þegar verið er að ákvarða nýtingu fiskstofna.

Að lokum vil ég hrósa þessari þingsályktunartillögu af því leytinu til að hér horfa menn gagnrýnum augum á það fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur lagt landsbyggðina í rúst og er sniðið út frá einhverjum efnahagslegum og hagfræðilegum kenningum sem eru langt frá því að vera eitthvað sem varðar líffræðina heldur hefur snúist algerlega upp í andhverfu sína. Það er orðið löngu tímabært að menn skoði þetta með gagnrýnum hætti. Og ég er í rauninni hissa á því, frú forseti, að hér séu ekki einhverjir stjórnarliðar að reyna að átta sig á því og taka þátt í þessari umræðu og hlusta á það og læra og jafnvel taka þátt í rökræðum um hvernig menn geta gert hlutina betur. Ég er kannski ekki endilega sammála þessari leið en það er þess virði að ræða slíka hluti hér.