132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[16:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég kem upp vegna þess að ég fór ekki alveg rétt með það sem fram kom í skýrslu sem gefin var út um samkeppnishæfni íslensks og norsks sjávarútvegs. Er í sjálfu sér ekki að undra að minnið hafi svikið mig því að þetta var svo mikil vitleysa sem fram kom í skýrslunni, engin rökhugsun sem getur skýrt það sem var á bak við skýrsluna en það var víst hagfræði en ekki líffræði og ég er líffræðingur og get ekki alveg alltaf sett mig í spor hagfræðinga sem vilja stýra og segja hvað sé gott til að stýra lífríkinu. Í skýrslunni kom fram það mat að Ísland skoraði mjög lágt miðað við Noreg í einum samanburðinum. Ástæðan var sú að ýsuaflinn jókst á Íslandsmiðum, hann jókst verulega á milli ára og það er mjög slæmt frá sjónarhóli hagfræðinnar vegna þess að ýsan streymir þá ekki jafnt inn á færibandið heldur kemur í mismiklum mæli á milli ára. Það er mjög slæmt þegar horft er á fiskveiðistjórn út frá hagfræðinni. Það er betra ef alltaf veiðist jafnt. Því skoraði Ísland lágt í þessum samanburði vegna þess að ýsuaflinn jókst og það var mjög slæmt í samanburðinum.

Svona skýrsla sýnir kannski á hvaða leið við erum í ýmsum samanburði. Þetta er bara hrein og klár vitleysa og undarlegt að bjóða upp á slíkt. En það sem jafnaði þetta út, að ýsuaflinn skyldi aukast og Ísland skoraði að því leytinu lágt, var að þorskaflinn jókst á milli ára og það var mjög slæmt. Nei annars, það er svo erfitt að átta sig á þessu, önnur vitleysa svipaðs eðlis var að í samanlögðum fimm helstu veiðistofnunum skoraði Ísland heldur hærra vegna þess að þorskaflinn minnkaði og það var jákvætt á grundvelli hagfræðinnar, þess vegna var það mjög jákvætt. Það er í rauninni mjög erfitt að átta sig á svona skýrslum og hugsanagangi í sambandi við íslenska fiskeiðistjórn og þegar verið er að lesa þetta er þetta svo órökrétt að maður á ekki orð yfir það að slíkt sé borið á borð.

Ég vildi koma upp í þessari umræðu til þess að koma þessu rétt frá mér en svona skýrsla og svona stjórn eins og viðgengist hefur á Íslandi undanfarin ár er auðvitað hrein og klár vitleysa. Þingsályktunartillagan sem við ræðum hér er því tímabær út frá því að það er rétt að skoða hlutina upp á nýtt, sérstaklega þá hluti sem ganga illa.