132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[16:15]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þar sem hann er fyrsti flutningsmaður, hvort flutningsmenn þingsályktunartillögunnar hafi íhugað nánar hvaða svæði þeir hafi augastað á umhverfis landið. Hafa þeir skoðað það með einhverjum hætti? Er verið að tala um einhver ákveðin hólf út af landgrunninu? Er verið að tala um ákveðna firði eða flóa? Er verið að tala um ákveðin svæði einhvers staðar úti í köntum? Það væri áhugavert að fá að heyra hvað þeir hafa hugsað sér svo betur sé hægt að gera sér grein fyrir hvað fyrir þeim vakir.

Ég ítreka það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns að það er mjög mikilvægt að við tökum öll þessi mál til endurskoðunar og hugsum hlutina upp á nýtt. Eins og bent hefur verið á hafa vísindin ekki gagnast okkur nógu vel — þær vísindaaðferðir og kenningar sem uppi hafa verið fram til þessa hafa því miður ekki skilað tilætluðum árangri. Maður hlýtur að lýsa yfir vonbrigðum með að ekki skuli fleiri þingmenn úr öllum flokkum nota það tækifæri sem gefist hefur í dag til þess að ræða þessa hluti. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.