132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nokkuð hissa á að þessi þingsályktunartillaga hafi ekki fengið meiri athygli en raun ber vitni vegna þess að í henni er fólgin veigamikil gagnrýni á ríkisstjórnina sem kemur fram í upphafsorðum greinargerðarinnar. Það er mjög sérstakt að heyra þetta frá þeim sem sitja í ríkisstjórn og telja sig vera hægri flokk, að gagnrýna vöxt ríkisins og fjölgun fyrirtækja í eigu ríkisins og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er mjög þung gagnrýni og ekki einungis á ráðherra í samstarfsflokknum, heldur er umhverfisráðherra einnig gagnrýndur hér í greinargerðinni. Það má lesa þunga gagnrýni á hæstv. umhverfisráðherra og rekstur fyrirtækja sem hún ber ábyrgð á. Ég tel að þetta sé umhugsunarefni. Enda getur verið að umræddum þingmönnum sem flytja þessa gagnrýni á ríkisstjórnina sé einfaldlega orðið um og ó vegna útþenslu ríkisins. En síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum hafa útgjöld ríkisins þanist út um 120 þús. milljónir á föstum fjárlögum. Þetta er kannski þeirra óp í eyðimörkinni til að sporna við þeirri þróun.