132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:02]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður Sigurjón Þórðarson hafi verið að lýsa yfir stuðningi við þetta mál og talið það stórfrétt af því stjórnarþingmenn væru hugsanlega að gagnrýna eitthvað sem ríkisstjórnin gerði. Það er ágætt að það sé frétt fyrir hv. þingmann en það er nú þetta sem stjórnmálamenn verða að gera ef þeir ætla að standa sig í stykkinu. Ef einhver stjórnmálamaður telur að sú ríkisstjórn sem hann styður eða meiri hluti í sveitarstjórn hafi náð einhverjum fullkomleika, þá held ég að viðkomandi stjórnmálamaður ætti strax að fara að finna sér eitthvað annað að gera. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir þrátt fyrir að núverandi ríkisstjórn og fyrirrennarar hennar hafi náð stórkostlegum árangri í efnahagsmálum og kaupmáttaraukningin sé hér meiri en annars staðar þekkist. Ég hef í rauninni hvergi séð neitt sambærilegt í þeim gögnum sem ég hef séð. Þá breytir það því ekki að við skulum alltaf vera vakandi og við skulum alltaf geta betur. Sem betur fer erum við með umhverfisráðherra sem er meðvitaður um þetta og mig minnir að við höfum gengið frá því nú á haustþingi, t.d. með lögum um Veðurstofuna þar sem einmitt var verið að skilgreina betur hlutverk Veðurstofunnar þannig að Veðurstofan væri ekki að keppa við einkaaðila.

En betur má ef duga skal og aðalatriðið er þó þetta. Það er sama hvort það er ríkisvaldið eða sveitarfélögin. Það eru tekin mýmörg dæmi hér af sveitarfélögum eins og hv. þingmaður veit, ef hann hefur lesið greinargerðina, og við eigum aldrei að þreytast á að gera betur. Þrátt fyrir að við höfum náð þessum stórkostlega árangri sem við öll þekkjum fer víðsfjarri að verkefninu sé lokið.