132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:06]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Sigurjón Þórðarson nefndi hér ágætt dæmi um fáránleikann þegar fyrirtæki eins og Síminn er í eigu ríkisins. Það er eðli málsins samkvæmt að það er algerlega fáránlegt að hafa slíkt fyrirtæki sem er í samkeppnisrekstri eins og Síminn var, í eigu hins opinbera. Það segir sig alveg sjálft, og ég nefndi um það dæmi í upphafi minnar ræðu, hversu góð áhrif það hafði þegar ríkisbankarnir losnuðu undan yfirráðum ríkisins og fóru í eign almennings og urðu svokallað einka- eða almenningshlutafélag, það hafði mjög góð áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja. Er þetta eitthvað sem kemur okkur við? Reyndar kemur það okkur öllum vel. Við höfum fengið gríðarlega fjármuni, skatttekjur, af þessum fyrirtækjum, bæði út af tekjuskatti og út af hagnaði þessara fyrirtækja og ýmsum afleiddum veltusköttum og sömuleiðis vegna þess að fyrirtækin hafa stækkað og dafnað og hafa borgað fólki góð laun.

Það er vonlaust að hafa fyrirtæki í eigu opinberra aðila í samkeppnisrekstri. Það er algerlega vonlaust. Það gerir engum gott, hvorki stjórnendum fyrirtækjanna né eigendum eða viðskiptavinum, eða hverjum sem við nefnum þar. Ég þekki vel baráttuna við að fá upplýsingar og ég sit í stjórn opinbers fyrirtækis sem hefur þvælst inn á samkeppnisrekstur og þar vísa ég í Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur verið mjög erfitt að fá upplýsingar um. Ég held að það skipti máli í það minnsta að það séu skýrar reglur hvað þetta varðar. Slíkt er (Forseti hringir.) að sjálfsögðu vandmeðfarið. En stóra atriðið er þetta: Að samkeppnisfyrirtæki eiga ekki að vera í eigu opinberra aðila.