132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:17]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það má taka undir að vert sé að fara yfir það á hvaða sviðum ríkisstofnanir og ríkið séu í samkeppni við einkaaðila og að því leyti til held ég að þessi þingsályktunartillaga sé af hinu góða. Ég lít vissulega á þetta sem gagnrýni á það hvernig mál hafa þróast í höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á undanförnum árum. Menn eru greinilega komnir með miklar efasemdir um það í þeim flokkum hvernig þeir hafa haldið á spilunum og eru tilbúnir að fara í þá vinnu að skoða hvað hafi farið úrskeiðis.

Hér hafa líka verið nefnd dæmi, m.a. um Orkuveituna, þar sem erfitt hefur verið að nálgast upplýsingar. Sama á við um Símann þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins hélt á spilum og leyfði stjórnarandstöðunni og öðrum sem voru í samkeppni ekki að sjá hvort Síminn hefði rétt við varðandi það hvort rétt væri að selja Símann. Það sem við í Frjálslynda flokknum gagnrýndum var að með sölu grunnnetsins væri hætta á að ekki yrði samkeppni og þeir einkaaðilar sem flutningsmenn segjast vera að gæta hagsmuna fyrir, þessir litlu aðilar sem voru í samkeppni við stóra Símann, sögðu okkur í Frjálslynda flokknum að þeir óttuðust að samkeppnin yrði enn þá erfiðari þegar grunnnetið, sem færir eigandanum einokunaraðstöðu, væri komið í hendur einkaaðila en hún væri þó í höndum ríkisins. Vel má vera að þetta þróist með jákvæðum hætti en samt sem áður eru ýmsar fréttir af landsbyggðinni um það hve símaþjónustan þar hefur minnkað því miður ekki jákvæðar fyrir fólkið í landinu. Verið er að leggja niður störf á Blönduósi og víðar. Þegar við í stjórnarandstöðunni viljum fá að vita hvernig málin eigi að þróast hvað varðar þjónustu og annað á landsbyggðinni vilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ekki fá þær upplýsingar hver þjónusta Símans eigi að vera í framtíðinni. Það var búið að telja fólki trú um að þetta væri jákvæð byggðaaðgerð. Auðvitað hefði salan átt að vera þannig að eitthvað jákvætt hefði fengist út úr þeirri framkvæmd fyrir alla. En því miður voru fyrstu fréttirnar sem fólkið úti á landi fékk slæmar.

Hvað varðar þessa þingsályktunartillögu tel ég að vert sé að hafa eitt í huga við það að gerð er arðsemiskrafa til þjónustu og hún sett í samkeppni og til einkaaðila og það er ákveðin samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi hér að að sorphirðan yrði færð í einkarekstur og samkeppnisrekstur. Fólk má ekki gleyma því að sveitarfélögin hafa haft ákveðnu samfélagslegu hlutverki að gegna með því að útvega þeim vinnu sem höllum fæti standa og hafa ekki fulla starfsgetu. Það verður einhvern veginn að mæta þessu og það er hægt með því að sveitarfélög leggi að einhverju leyti til sjóði eða hafi einhvern hvata fyrir fyrirtæki þannig að þau ráði fólk sem er með skerta starfsgetu, menn mega ekki láta arðsemissjónarmið ráða eingöngu við rekstur samfélagsins. Auðvitað eigum við að hafa það þar sem við á en ekki láta það eingöngu ráða. Það er nefnilega svo að ef fólk með skerta starfsgetu kemst á annað borð inn á vinnumarkaðinn getur það leitt til þess að það nái fullri starfsorku og það ætti að vera eitt af því sem flutningsmenn og við stjórnmálamenn ættum að hafa í huga.

Engu að síður er þessi þingsályktunartillaga gífurlega þung gagnrýni á það hvernig stjórnarflokkarnir hafa haldið um stjórnartaumana og hve þeir hafa þanið út ríkisútgjöldin, um heila 120 milljarða á föstu verðlagi á síðustu tíu árum og einnig aukið hlut hins opinbera af þjóðarkökunni. Það er greinilegt að a.m.k. ýmsir í Sjálfstæðisflokknum eru farnir að hafa áhyggjur af þessu og ég hef áhyggjur af því, sérstaklega vegna þess að nú eru þenslutímar og þá er verið að þenja út ríkisútgjöld með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, þenja út og fjölga ríkisstofnunum eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu. Nær væri þegar samdráttur verður að þenja þá aðeins út hið opinbera en nú á tímum þenslu er ríkið þanið út sem aldrei fyrr.