132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Staðbundnir fjölmiðlar.

138. mál
[17:30]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek til máls um tillögu til þingsályktunar sem kynnt var af hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. Mig langar að koma inn á að ég held að í umræðunni um fjölmiðla í dag sé mikilvægt að halda á lofti staðbundnum fjölmiðlum. Í litrófi fjölmiðlanna, eftir þær miklu breytingar sem við höfum horft upp á undanfarin missiri, er mikilvægt að halda þeim í rekstri. Ég vona þess vegna innilega að tillagan nái fram að ganga og menn velti fyrir sér hvernig hægt sé að efla rekstrargrundvöll þeirra. Eins og fram kom hjá framsögumanni er mikilvægt að fjalla um minni sveitarfélög víða um landið í fjölmiðlum, gera mannlífi þar skil og halda því á lofti. Ég vona því að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga og fái afgreiðslu í vetur.