132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:35]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað er það mikið áhyggjuefni að við skulum ekki vera búin að finna loðnuna. Umfangsmikil leit hefur staðið yfir alveg frá því í haust og hefur hún verið gerð í góðu samstarfi Hafrannsóknastofnunar og útvegsfyrirtækjanna. Ég tel að eðlilega hafi verið staðið að þeim málum. Það hefur verið stóra verkefnið, við reynum allt sem við getum til að finna loðnuna. Aðstæðurnar hafa verið á alla vegu, bæði veðurfarsaðstæður og aðrar aðstæður en engu að síður höfum við lagt á þetta mikið kapp. Hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni hefur verið haldið úti til að standa að þessu ásamt útgerðunum. Ekki eru þær aðstæður uppi sem gefa tilefni til þess að skipið — reyndar er skipið núna á leiðinni á miðin til að reyna að kasta máli á það sem fundist hefur.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að nokkur veiði er. Ég tel að það ástand sem núna er gefi ekki tilefni til að stöðva þær veiðar. Öðru nær þurfum við að herða leitina til að reyna að finna út hversu mikið af loðnu er í hafinu. Ég hef talað við marga skipstjóra út af þessu máli, m.a. skipstjóra sem hafa verið á miðunum. Ég hef talað við þá bæði í landi og þegar þeir hafa verið í loðnuleit — að sjálfsögðu höfum við áhyggjur af þessu ástandi — en hins vegar er mat þeirra það að engin ástæða sé til að örvænta strax eða afskrifa stofninn. Ég tel að það væri ekki skynsamlegt að við kölluðum skipin í land og kæmum þannig í veg fyrir að við gætum haldið áfram þessari leit.

Árni Friðriksson er núna vegna bilunar á Seyðisfirði en er á leiðinni á miðin og þá vonandi fáum við einhverja skýrari mynd. Þær upplýsingar sem við höfum frá loðnuskipunum gefa okkur ekki, því miður, til kynna að ástandið hafi mikið breyst. Hins vegar er verið að skrapa upp nokkurt magn á nokkuð dreifðu svæði. En það er ekkert að mínu mati sem bendir til að við eigum að hætta leit eða stöðva veiðar. Þær eru auðvitað á vissan hátt forsenda fyrir því að við getum haldið úti svona umfangsmikilli leit eins og staðið hefur yfir og hún er óskaplega mikilvæg vegna þess að hér er mikið í húfi.