132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:44]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Þegar rætt er um loðnustofninn þá er hann annars vegar mikilvægur sem veiðistofn og hins vegar sem undirstaða í fæðu þorsksins. Það hefur gerst á 10–12 ára fresti að loðnustofninn hefur farið í lægð en ekki er hægt að tengja skýringarnar við veiðarnar. Auðvitað hafa menn áhyggjur þegar engin loðna finnst nú í byrjun árs. Ég eyddi töluverðum tíma í Eyjum og á Hornafirði í að ræða við aðila sem starfa í greininni. Þeir vildu gefa loðnunni tíma fram að mánaðamótum til að láta sjá sig, sögðust þekkja söguna betur en svo að allt væri búið þó komið væri fram yfir miðjan janúar.

Einnig er verið að blanda mikið saman stofni þorsksins og loðnuveiðum en á síðustu árum hefur þorskurinn haft takmarkaðan aðgang að loðnunni.

Einnig ber að fagna því að Hafró hefur fengið 50 millj. kr. í viðbót á fjárlögum á þessu ári og aðrar 50 árið 2007. Þarf að nýta þetta fjármagn vel til frekari rannsókna. Þessa dagana stendur leit yfir. Við höfum áhyggjur en við megum ekki dæma loðnustofninn úr leik. Sagan segir okkur annað.