132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:45]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það er ágætt að þetta mál skuli vera tekið upp á Alþingi þó að ég vilji ekki segja að það séu ískyggilegar horfur þótt veiðar hafi dregist eða ekki verið byrjað af krafti á loðnuveiðum þetta árið. Loðnan hefur oft gert okkur lífið leitt. Þetta er kenjóttur fiskur og það er greinilegt að breyting í hafinu, hlýnun sjávar, hefur breytt mjög göngumunstri loðnunnar. Ég minnist þess t.d. að eitt sinn, sennilega var það 1988–1989, var það gefið út að loðnustofninn væri hruninn og væri talinn 50 þúsund tonn. Skipin sigldu öll inn á Akureyri og þar var fundað. Þá var núverandi hæstv. forsætisráðherra sjávarútvegsráðherra. Síðan fóru skipin út og það hefur aldrei verið önnur eins veiði og frá og með þeim tíma að þau fóru út og til vertíðarloka. Það er auðvitað mál sem ber að hafa áhyggjur af þegar ekkert veiðist á sumrin og ekkert á haustin og ekkert er komið núna. Það eru áhyggjur sem við eigum að hafa og við eigum að hafa áhyggjur af peningaskorti Hafrannsóknastofnunar undanfarin mörg ár. Fremsti loðnusérfræðingur okkar, Hjálmar Vilhjálmsson, hefur margoft sagt okkur frá því í sjávarútvegsnefnd hvernig hann hefði viljað standa að þessu máli en það hefur ekki verið hægt vegna fjárskorts. Því á ekkert endilega að fagna aukafjárveitingu til Hafrannsóknastofnunar, þetta á að vera sjálfsagður hlutur. (Gripið fram í.) Það er grundvallaratriði, virðulegur forseti, að Hafró geti stundað betur eftirlit með loðnuveiðum vegna þess að við megum að sjálfsögðu ekki taka of mikið úr stofninum en heldur ekki of lítið. Þarna þarf að rata hinn rétta meðalveg.

Virðulegi forseti. Ég segi það hér í lokin að ég held eða ég vona alla vega að það sé enginn heimsendir í þessu og að loðnustofninn sé hruninn eins og oft hefur verið spáð. Ég hygg að kröftug og mikil loðnuveiði muni byrja á bilinu 27.–30. janúar nk. og hún verði kannski á dálítið sérstökum stað þar sem hún kemur, ætli hún komi ekki aftan að okkur núna, þessi kenjótti fiskur, og komi (Forseti hringir.) frá frændum okkar Færeyingum að þessu sinni.