132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að fara varlega meðan við sjáum engin merki um neinar sérstakar loðnutorfur eða loðnumagn í hafinu ganga að landinu. Við megum ekki gleyma því að loðnan er mikilvægasta fæðutegund margra fiskstofna og þar að auki er hægt að orða það svo að hún sé áburður á alla grunnslóðina við Ísland þegar hún leggst til hrygningar og mikið af henni deyr reyndar eftir þá hrygningu en verður samt eftir í lífríkinu sem fæða fyrir aðrar tegundir.

Það er auðvitað nauðsynlegt að fara varlega í þessari stöðu. Ég held að við eigum að meta það mjög gaumgæfilega núna hvort ekki sé ástæða til að stöðva veiðarnar um tíma og sjá þá til hvort meira magn kemur inn á íslensku grunnslóðina. Það er ekki verjandi fyrir okkur að halda áfram veiðum í algjörri óvissu um hvernig þetta lítur út í framtíðinni. Vonandi kemur loðnan okkur á óvart eins og svo oft áður og verulegt magn komi inn á fiskimiðin við Ísland en við sjáum engin merki þess eftir endurteknar rannsóknir, það er ekki langt síðan rannsóknaskipið Árni Friðriksson fór yfir svæðið sem skipin hafa verið að toga á og fann ekki neitt sem teljandi var. Ef leitin verður svo endurtekin núna yfir helgina og ekkert finnst þá held ég að sjávarútvegsráðherra sé kominn í þá stöðu að verða að endurskoða málið og stöðva veiðarnar þar til breyting verður á.