132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:55]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég biðst afsökunar á þessari örstuttu töf sem varð vegna þess að ég var að setja á mig hið lögskipaða hálstau sem þingmenn bera hér á fundum. Mér tókst nefnilega ekki að setja það á mig á hlaupum mínum yfir Austurvöll þegar ég sá í sjónvarpinu að formaður menntamálanefndar hv. hafði hafið hér umræðu um störf þingsins, m.a. um mína persónu án þess að hafa látið mig vita af því að það stæði til. Nú er það að vísu þannig að það er auðvitað mætingarskylda hér á fundi og það er kannski sú regla sem hann er að reyna að beita hér og ég mun þá fylgjast með því og bið forseta að gera það líka að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sinni þeirri mætingarskyldu og ég geri þá athugasemdir sérstakar við það ef hann er ekki kominn hér í upphafi þingfundar til þess að ræða hluti sem kynnu að koma upp á í starfi hans.

Við lögðum fram, fulltrúar minni hlutans í menntamálanefnd, í morgun sérstaka yfirlýsingu sem hefur verið send út til menntamálanefndar og nefndarmanna og til fjölmiðla þar sem við vöktum athygli á því að sú ráðstöfun fjármálaráðherra, sem fulltrúi menntamálaráðherra lýsti reyndar yfir að sinn ráðherra væri ekki með í, að krefjast trúnaðar á þessum gögnum væri að öllum líkindum í andstöðu við upplýsingalög, anda upplýsingalaga — fjármálaráðherra er ekki mættur hér frekar en aðrir þeir sem við sögu koma — þar sem skýrt er kveðið á um að því aðeins sé hægt að útiloka gögn sem lýsa samskiptum við erlend ríki eða fjölþjóðastofnanir að mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess að þeir séu útilokaðir. Ég bið, úr því að hv. formaður menntamálanefndar er staddur hér og úr því að ráðherrabekkirnir eru þó þokkalega skipaðir, um skýringu á því: Hvaða mikilvægu almannahagsmunir krefjast þess að almenningur og þingmenn fái ekki að sjá þessi gögn?