132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:00]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert við fundarstjórn forseta að athuga. Ég tel að hún hafi verið mjög eðlileg í þessu máli. Ég vil líka benda hv. þm. Kristjáni Möller á að ég kvaddi mér hljóðs um störf þingsins og þau störf sem eiga sér stað og hafa átt sér stað í dag innan Alþingis en ekki um loðnuna eða loðnustofninn. Ég lít þannig á að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér komu upp fyrr í dag í umræðum um loðnuna hafi verið að misnota þennan lið þingskapanna til að koma sínum áhugamálum á framfæri. Ég var að gera grein fyrir því að lögð hefðu verið fram gögn í menntamálanefnd sem fjallað hefur verið um hér og varða störf þingsins.

Ég vil líka taka það fram út af þeim orðum sem hér komu fram að það kom fram á fundi menntamálanefndar í morgun að álitaefni það sem ég færði í tal í ræðu minni undir störfum þingsins væri hægt að ræða undir þeim lið og óþarfi væri að ræða þau innan nefndarinnar. Ég veit að hv. þm. Kristján Möller var ekki staddur á fundi menntamálanefndar þegar þau orð voru látin falla enda á hann ekki sæti í nefndinni. En á þeim tíma voru staddir á fundi nefndarinnar hv. þm. Mörður Árnason og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og ættu þau að geta vitnað um þetta eins og allir meðlimir stjórnarflokkanna sem sæti eiga í menntamálanefnd.

Það vakti hins vegar dálitla athygli að á þeim fundi bar svo við, reyndar af eðlilegum ástæðum að sumu leyti, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni gengu út af fundi þegar fulltrúar ráðuneytanna fengu tækifæri til að gera grein fyrir meginatriðum þeim sem koma fram í þessum gögnum þannig að undir því sátu áheyrnarfulltrúi frá Frjálslynda flokknum og síðan stjórnarliðarnir í menntamálanefnd. (LB: Er þetta um fundarstjórn forseta?) Þannig er það nú. Umræðan á því rétt á sér. Fundarstjórn forseta er fullkomlega eðlileg en athugasemdir hv. þm. Marðar Árnasonar um mætingu mína hér á þingi og mætingarskyldu eru algerlega óskiljanlegar, algerlega fráleitar og ég veit ekki betur en ég mæti hér og sinni minni mætingarskyldu mjög vel og reyndar miklu betur en margir af þingmönnum hans flokks.