132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:02]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta vísa því á bug að það hafi ekki verið fyllilega réttlætanlegt að tala um loðnuna áðan í umræðunni um störf þingsins. Ég minni á að þetta mál varðar þingið og störf þess. Ég minni á að hæstv. sjávarútvegsráðherra er líka þingmaður og hefur skyldum að gegna sem slíkur. Ég minni á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem eru hér allnokkrir eru líka þingmenn. Ég minni á að hér eru líka þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og við erum að tala um hluti sem hljóta að falla undir ábyrgð þessara stjórnmálaflokka. Það skal líka verða fært til bókar að þessir flokkar verða dregnir til ábyrgðar í þessu máli ef illa fer og það er alveg sjálfsagt og eðlilegt og réttmætt að þetta sé tekið upp á þingfundi og þingmaðurinn og hæstv. sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson spurður að því hvort hann ætli að halda áfram á þeim glapstigum sem hann hefur því miður verið á nú um allnokkurt skeið.

Ég vil síðan ítreka við hv. formann menntamálanefndar að ég sit í menntamálanefnd sem einn af fulltrúum stjórnarandstöðunnar þó að ég sé áheyrnarfulltrúi. Ég var á þessum fundi áðan, sat á þessum fundi og hlýddi á mál fulltrúa fjármálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Tveir aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar fóru af fundinum og höfðu fyrir því fullgildar ástæður. Þeir þurftu að fara annað. Þeir höfðu ráðstafað tíma sínum öðruvísi. Til þessa fundar var boðað til með mjög skömmum fyrirvara og það er fullkomlega eðlilegt að einhverjir heltist úr lestinni, að einhverjir þingmenn þurfi að sinna skyldum, jafnvel persónulegum hlutum, annars staðar á þessum tíma þannig að það er ekkert við það að athuga.

Hins vegar hlustaði ég á fulltrúa frá ráðuneytinu og hafði af því svona sæmilegt gagn þó að það væri frekar óeðlilegt að væri farið yfir þessi skjöl með okkur því að við vorum ekki búin að lesa neitt af því sem þarna stóð og eðlilega bar umræðan þess merki á þessum fundi nú rétt áðan.

Ég vil svo að lokum benda á, af því að hér er verið að tala um tímasetningar, að við getum svo sem farið yfir það hvort tíminn hafi verið liðinn eða ekki. En ég vil, af því að fólk er að fylgjast með, fá að lesa upp úr lögum um þingsköp, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins. Enginn má tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn.“ — Síðan stendur, með leyfi forseta, og ég ítreka það: „Umræður um athugasemdir mega ekki standa lengur en í tuttugu mínútur.“

Þær mega ekki standa lengur. Við getum svo bara farið yfir það á eftir hvort þessi lög hafi verið brotin áðan eða ekki.