132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:11]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en hv. þingmaður hafi setið báða eða alla þá fundi sem efnahags- og viðskiptanefnd hélt þegar umræður um þetta mál fóru fram. Hver einn og einasti lögfræðingur sem var spurður um hvort þetta stæðist stjórnarskrá svaraði á þann veg að hann teldi það afar ólíklegt. Það var reyndar þannig að þeir lögfræðingar sem voru spurðir sögðu til að mynda varðandi eignarréttarákvæðið að það væri nánast víst að það mundi ekki standast. Hið sama má segja um ákvæðið um forsetann. Þeir kváðu misfast að orði eftir því hvaða ákvæði stjórnarskrárinnar var um að ræða, eftir því hvort rætt var um eignarréttarákvæðið, um ákvæðið um jafnræði eða um ákvæðið um forsetann. Á sama hátt guldu þeir allir varhuga við afturvirkni en það er meginregla að lög skuli ekki vera afturvirk. Þeir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina og tjáðu sig um þetta tiltekna atriði kváðu allir sem einn upp úr um að ekki ætti að fara þessa leið sem ríkisstjórnin er að fara. En samt sem áður stendur það eftir, og því er best að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki eðlilegt þegar svona mikill vafi leikur á að frumvarp eða hugmyndir sem ríkisstjórnin er með standist stjórnarskrá, að draga það fram í meirihlutaáliti þegar svona eindregið er varað við því að fara slíka leið. Er ekki eðlilegt að koma slíkum sjónarmiðum á framfæri? Ég spyr hv. þingmann að því.