132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:17]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér greinir menn á um hvað lögfræðingar sögðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Sitt sýnist hverjum. En ég vil, vegna þess að við höfum þá ekki hér inni í þingsalnum, vitna í orð Sigurðar Líndals, prófessors í lögum, sem kom fram í fréttum sjónvarps 29. desember á síðasta ári. Þar sagði hann þegar verið var að ræða þessi mál, með leyfi forseta:

„Ég tel að það séu nú veruleg vandkvæði á því en ekki útilokað.“

Þá var verið að ræða um hvort Alþingi Íslendinga gæti breytt lögunum afturvirkt. Þetta er nákvæmlega það sem kom fram í nefndinni: Lögfræðingar tala um að það þurfi að fara varlega en þeir töluðu alls ekki um að þetta væri útilokað. Þeir sögðu alls ekkert af eða á um það. Það kom fram að til grundvallar þyrfti að liggja brýn nauðsyn eða réttmæt rök, og við teljum svo vera. Taka þurfti pólitíska ákvörðun og það gerum við hér í þessu máli. Það er það sem við höfum til hliðsjónar. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt það orðrétt að þetta kæmi alls ekki til greina. Ég vil að það komi fram.

En ég fór nú aðallega hér upp í andsvar vegna orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um að ríkisstjórnin hefði ekki haft hugmynd um hvernig átti að snúa sér í málinu þegar þessi dómur féll. Ríkisstjórnin vissi það alveg og vildi bregðast hratt við og skipa vinnuhóp sem átti að vinna hratt að því að endurskoða kjaradóminn og átti sá hópur að skila af sér fyrir þingbyrjun núna í þessari viku. Ég held að það hefði verið langfarsælast ef menn hefðu tekið þátt í því og við hefðum verið að ræða hér endurskoðun á þeim vinnureglum núna, en ekki í lok mars.