132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:46]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór að öllu leyti rétt með eins og þingmaðurinn staðfesti. Það var nákvæmlega rétt eftir þessum mönnum haft. Það er að mínum dómi þjóðarnauðsyn að þetta fái fram að ganga og ég hef verið að reyna að rökstyðja það og skal rökstyðja það enn frekar ef þörf er á.

Þegar ég talaði um börn með byssur þá átti ég við gjörð Reykjavíkurborgar nýverið þegar hún hleypti upp kjarasamningum sínum. Það var alveg ljóst af máli mínu um hvern ég var að tala og hvað ég meinti, enda liggur það alveg fyrir. Þess vegna var ég að óska þeim blessunar, þeim forustumönnum sveitarfélaga á Íslandi sem sitja núna allir saman í örvæntingu sinni að reyna að slökkva þá elda sem ógna flestöllum sveitarfélögum sem hafa engin efni á að verða við þeim kröfum sem að þeim er beint í dag.