132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:48]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ár eftir ár við hverja einustu fjárlagaumræðu hef ég allt frá árinu 1999 varað við launaþróun ríkisins. Því miður hafa fáir tekið undir með mér ef þá nokkur maður.

Þær tölur sem liggja fyrir í dag staðfesta það, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði, ég hef haft rétt fyrir mér allan tímann. (MÁ: Hver ber ábyrgð á þessari ríkisstjórn?) Í öllum þeim upplýsingum sem ég hef getað aflað mér, það liggur ekki fyrir skýrt sundurliðað hjá Hagstofunni, en samkvæmt öllum þeim tölum og öllum þeim gögnum sem ég hef fengið í hendurnar verður því miður að segja að það bendir allt til þess að þrátt fyrir að óvarlega hafi verið farið hjá ríkinu virðast sveitarfélögin hafa samið um enn hærri hækkanir. (Gripið fram í: Nei.) Ef annað kemur í ljós þætti mér vænt um að sjá það. En þau gögn sem ég hef undir höndum benda öll til hins gagnstæða, því miður, sveitarstjórnirnar hafa samið um enn meiri hækkanir.