132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefðum farið með rangt mál varðandi það sem fram hefði farið í efnahags- og viðskiptanefnd og þá sérstaklega með tilvísan til ummæla lögfræðinga sem komu á fund nefndarinnar. Staðreyndin er sú, og það hefur komið fram í máli mínu áður, að ég hef haft ákveðnar efasemdir um að staðhæfingar um stjórnarskrárbrot standist. Það er mín persónulega skoðun og hún hefur margoft komið fram í nefndinni, hér á Alþingi og opinberlega í fjölmiðlum.

Það kom mér hins vegar á óvart hversu afdráttarlausir lögfræðingarnir voru í varnaðarorðum sínum. Ég ætla að láta rökstuðninginn liggja á milli hluta en þeir gengu mjög langt í því, sérstaklega Eiríkur Tómasson, að vara við því að frumvarp ríkisstjórnarinnar kynni að stangast á við stjórnarskrá lýðveldisins. Vísað var í lögin, í stjórnarskrárákvæðið og í skýringargagn með stjórnarskrárákvæðinu. Mér fannst það ekki vera sannfærandi málflutningur, ég tek það skýrt fram, en varnaðarorðin voru mjög afdráttarlaus og mjög skýr. Við teljum að okkur beri skylda til þess að færa þær upplýsingar hér inn í þingið.

Ég lýsi furðu minni á því að í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar skuli þessa ekki finna stað. Það finnst mér mjög gagnrýnisvert og tek heils hugar undir þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni hvað þetta varðar. Menn skulu því fara mjög varlega í ásökunum á hendur okkur í þessu efni. Þegar um það er að ræða að varnaðarorð séu sett fram um hugsanlegt stjórnarskrárbrot ber að sjálfsögðu að taka það alvarlega og vísa til þess í áliti viðkomandi nefndar.