132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:56]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur farið hér mikinn varðandi þetta frumvarp. Það eru nokkur atriði hérna sem ég tel rétt að leiðrétta og það er kannski ekki óeðlilegt að hann fari rangt með varðandi kjarasamninga því að það eru nokkrir áratugir síðan hann sjálfur stóð í þeim, styttra síðan hjá þeim er hér stendur.

Hv. þingmaður talaði um að það hefðu verið slæmir og óábyrgir samningar sem gerðir voru árið 2001. Rétt er að það komi fram að þeir samningar ríkisins beindust fyrst og fremst að því að lagfæra eða leiðrétta laun hinna lægst launuðu með svokölluðum launapottum. Ég spyr því hv. þingmann: Hvað var svona slæmt við þær launaleiðréttingar til hinna lægst launuðu?

Hv. þingmaður talaði jafnframt um að samningarnir 2005 hafi verið mun ábyrgari. Ég spyr: Hvað eru þeir í raun svo miklu frábrugðnari samningunum frá 2001? Að mínu viti eru þeir ósköp svipaðir. Ég er hérna með kjarasamninginn ef hv. þingmaður vill renna yfir hann. Þann 1. maí nk. munu fara fram miklar launaleiðréttingar fyrir þá lægst launuðu samkvæmt þeim samningi. Lægstu taxtar munu þar hjá ríkinu m.a. hækka um 12% þann 1. maí samkvæmt samningnum. Hver ber ábyrgð á kjarasamningum ríkisins? Er það ekki sjálfur hæstv. fjármálaráðherra? Það er hann sem kvittar undir. Ef hann kvittar undir hlýtur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson jafnframt að bera ábyrgð á þeim.