132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræðir eins og oft áður um nauðsyn betra siðferðis og gagnsæis launa. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann taki starfskostnaðargreiðslur sem þingmönnum er heimilt að taka, og fjórir til fimm þingmenn taka ekki, án þess að hafa reikning á móti? Í öðru lagi hvort hv. þingmaður taki dagpeninga sem eru 80% af kostnaði þrátt fyrir að hótel séu greidd og hvernig hann telji þá peninga inni í heimilisbókhaldinu? Eru þetta tekjur eða er þetta kostnaður? Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann taki þá vildarpunkta sem flugfélögin veita farþegum sínum um allan heim, sem er afskaplega siðlaust að mínu mati, og líti þannig á að telja beri þá fram til skatts o.s.frv. Að síðustu vildi ég spyrja hvort hv. þingmaður hafi skoðað lífeyrisréttindi þingmanna, hvort hann hafi flutt nokkurt frumvarp um að breyta því.