132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:46]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var líkt hv. þingmanni að færa umræðuna niður á einstaklingsplan og spyrja út í mitt heimilisbókhald í tengslum við þetta frumvarp. Þær greiðslur sem ég þigg, bæði sem laun og starfskostnað, eru samkvæmt lögum og reglum og ekkert við það að athuga. Ekki nokkur skapaður hlutur. Það er allt opinbert hvernig laun og kjör þingmanna eru. Það er auðvitað gegnsæi í því. Það vita allir hvernig þessum starfskostnaði er háttað og af honum er greiddur skattur. Dagpeningakerfið þekkja allir. Ég er nú ábyggilega í hópi þeirra þingmanna sem minnst ferðast á vegum þingsins. Varðandi það hvort ég þiggi eða telji fram vildarpunkta þá reyndi ég að gefa þá fáu vildarpunkta sem ég hef fengið upp í skattaskýrslunni síðast — svo ég fari nú bara út í mitt heimilisbókhald fyrst hv. þingmaður er svona áhugasamur um það — en það eru greinilega ekki til neinar reglur í ríkiskerfinu um hvernig á að draga þetta frá til skatts. Ég varð ekki vör við, þó að ég teldi þetta fram, að nokkuð væri til að byggja á hvað það varðar að færa þetta inn á skattskýrsluna. Ég gat um þá vildarpunkta sem ég nýtti en það var ekki að sjá að það breytti neinu í niðurstöðunni varðandi mínar skattgreiðslur.

Mér finnst hálfósmekklegt af hv. þingmanni að fara einstaklingsbundið ofan í mitt heimilisbókhald vegna þess að þær greiðslur sem ég fékk frá hinu opinbera eru allar fyrir opnum og tjöldum og þar er ekkert að fela. (Gripið fram í.)