132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þingmanns í dag að hann teldi afar áhugavert og raunar bráðnauðsynlegt að öll laun væru uppi á borðinu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er einn flutningsmanna frumvarps, 23. máls, og hvað skyldi það kveða á um? Frumvarp það gerir ráð fyrir að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af. (Gripið fram í.) Sem sagt að það eigi að taka út af borðinu að menn geti séð hvaða laun eru greidd í landinu og að reikna megi það út eins og hægt er að gera í dag og að þær skattskrár sem núna liggja frammi og eru til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi verði það ekki lengur.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þessi orð þingmannsins í dag eru í algerri andstöðu við það frumvarp sem hann flytur. (Gripið fram í: Það er nú einhver misskilningur.)