132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:26]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu sem hefur kannski um margt verið ágæt, en um annað hefur hún valdið talsverðum vonbrigðum. Það sem hefur valdið mér hvað mestum vonbrigðum er afstaða stjórnarliða til stjórnarskrárinnar.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að þeir séu vísvitandi að brjóta stjórnarskrána. En þeir sem hingað hafa komið upp og tjáð sig hafa allir viðurkennt að í tengslum við þá leið sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þá séu menn tilbúnir að taka áhættu varðandi þann vafa sem uppi er viðkomandi stjórnarskránni og það þykir mér óskaplega miður. Ég held að við eigum að virða stjórnarskrána á þann veg að í vafatilvikum eigi stjórnarskráin að njóta vafans. Þessi afstaða þykir mér miður og mér þykir hún benda til þess að menn hafi einfaldlega verið of lengi við völd, ellegar mundu þeir ekki nálgast verkefnið, að mínu mati, út frá þessu sjónarmiði. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þá afstöðu stjórnarliða að þeir hafi það meginsjónarmið í málinu að stjórnarskráin eigi ekki að njóta vafans og það þykir mér miður.

Annað vil ég einnig nefna í lokin vegna orða hv. þm. Pétur H. Blöndals. Í ræðu sinni talaði hv. þingmaður um að verið sé að lækka laun um 3,44%, minnir mig, þ.e. ef ég man töluna rétt úr hans ræðu. (PHB: ... forsetann.) Það kann að vera að hv. þingmaður hafi verið að tala um forseta. Ég vil aðeins vekja athygli á því að hér er það að gerast í fyrsta lagi að ríkisstjórnin er að leggja til að úrskurður Kjaradóms verði felldur úr gildi. Þegar hann er felldur úr gildi er um leið ákveðið að hækka laun um 2,5%. Með öðrum orðum er Alþingi að taka ákvörðun um að hækka laun ráðherra og þingmanna. Það er mikilvægt að þessar staðreyndir séu á hreinu í umræðunni og menn snúi ekki út úr þessu eins og mér fannst á ræðu hv. þingmanns.

Að þessum orðum sögðum er í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem umræðan hefur skilað í dag. Ég tel að það hefði átt að geta náðst góð sátt hér á þingi um að ljúka þessu og þá þannig að við skildum ekki stjórnarskrána eftir í uppnámi eins og sú leið sem meiri hlutinn hefur ákveðið að fara gerir í stað þess að reyna að lenda málinu vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft er í reynd enginn ágreiningur milli meiri og minni hluta hér á þingi um að afnema áhrif úrskurðar Kjaradóms frá því í desember. En vegna hinna fjölmörgu athugasemda sem fram hafa komið um þá leið sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara og einnig um þá ákvörðun sem hún tekur með því að hækka laun ráðherra og þingmanna, þ.e. að láta lögin eða Alþingi kveða á um þetta, þá treystum við okkur ekki til að fylgja henni eftir. Við höfum hins vegar lagt fram okkar hugmynd sem við teljum að standist ákvæði stjórnarskrár fullkomlega og teljum að um þá leið hefði átt að geta náðst góð sátt. Ég held að mjög mikilvægt sé að Alþingi sendi skýr skilaboð frá sér um að Alþingi sé ekki tilbúið að standa að og byggja undir þá launaþróun sem verið hefur á undanförnum missirum þar sem bilið milli þeirra sem meira mega sín og þeirra sem minna mega sín breikkar sífellt. Við lítum á þetta sem lið í því að sporna gegn þeirri þróun og viljum heldur ekki taka þátt í því að draga upp þá mynd að launaþróun sé önnur en birtist í Kjaradómi og á þann hátt kasta ryki í augu verkalýðshreyfingarinnar og almennings í landinu.