132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Laxeldisfyrirtækið Sæsilfur.

[15:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að uppfræða mig neitt sérstaklega um stöðu mála í Mjóafirði, ég er ágætlega málkunnug oddvitanum, honum Sigfúsi á Brekku. (KLM: … kom fram.) Að sjálfsögðu hef ég verið í sambandi við hann síðustu daga út af þessum fréttum. Hins vegar var málflutningur forsvarsmanna fyrirtækisins Samherja og Sæsilfurs mjög ónákvæmur hvað varðar raforkuverðið, m.a. vegna þess að ég hef upplýsingar um það að verð til fiskeldisfyrirtækis á landsbyggðinni sem kaupir um þriðjung þess rafmagns sem fer til fiskeldis hefur hækkað um 4,7% á milli ára. Það eru ekki nema rétt ríflega verðlagshækkanir þannig að það getur varla verið ástæða þess að uppi eru hugmyndir um að leggja starfsemina af. Ég vil ekki segja að það hafi verið alveg kveðið upp úr með það en a.m.k. eru ekki góðar líkur eins og er. Auðvitað er það mikið áhyggjuefni.

Ég vil líka taka það fram hér að Rarik gerði núna um áramótin úttekt á því hvernig raforkuverð hefur þróast hjá fyrirtækjum á dreifisvæði þess fyrirtækis. Þá kemur í ljós að raforkuverð til fyrirtækja hefur lækkað um 18–20% á kílóvattstund hjá þeim fyrirtækjum sem hafa keypt raforku hjá Rarik. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt að hv. þingmaður festi sér í minni svo hann þurfi ekki að koma hér upp vikulega til að tala um hækkun á raforkuverði almennt. Fiskeldi naut algjörra sérkjara áður fyrr og gerir raunar enn að ákveðnu marki, enda hefur Landsvirkjun gefið út fréttatilkynningu til að koma á framfæri staðreyndum í þessu máli. Það er spurning hvernig þau mál muni þróast. Þau eru enn í tilraunaferli, þessi fyrirtæki, og auðvitað vonum við öll að þau geti haldið áfram rekstri.