132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 2.

[15:16]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bið hæstv. iðnaðarráðherra að vera ekkert að hugsa um mig eða hafa neina samúð með mér. Má ég biðja hæstv. iðnaðarráðherra að hafa samúð með atvinnulífinu á landsbyggðinni eins og ég hef verið að gera hér að umtalsefni, en vera ekki með einhverja útúrsnúninga og benda á nokkur atriði sem hægt er að finna. Mér er ósköp vel kunnugt að hæstv. iðnaðarráðherra neitar því líka að raforkukostnaður hjá nokkrum íbúum á Raufarhöfn hafi hækkað t.d. eftir þessa breytingu um allt að 40%. Þess eru dæmi, virðulegi forseti, að einstaklingar eru hættir að hita með raforku og eru farnir að hita með kolum og timbri eins og var í gamla daga.

Virðulegi forseti. Ég endurtek og bið hæstv. iðnaðarráðherra að færa samúð sína yfir á atvinnulífið á landsbyggðinni, eins og laxeldisfyrirtækin, en vera ekki með þann útúrsnúning og hártoganir og annað slíkt sem hér kemur fram. Það er ráðherra ekki samboðið.