132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 3.

[15:20]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem snertir stöðu tungunnar, íslenskunnar, sem er okkur svo mikilvæg og, eins og allir vita, hefur gert okkur að þeirri þjóð sem við erum. En ég fagna að mörgu leyti þeirri umræðu, sérstaklega þeirri sem hefur átt sér stað núna á síðustu dögum. Það var einkar athyglisvert að lesa líka Lesbók Morgunblaðsins um helgina þar sem farið var mjög gaumgæfilega yfir m.a. stefnu flokkanna og það hvernig staðið er að eflingu íslenskunnar innan samfélags okkar og síðan hvernig þessu var fylgt eftir með málþingi í gær í Norræna húsinu. Það að fullt skuli hafa verið út úr dyrum sýnir auðvitað mikinn áhuga landsmanna og metnað til að gæta vel að hverju skrefi sem við tökum í þá veru að efla íslenskuna.

Að þessu sögðu er alveg ljóst að við megum ekki sofna. Við verðum að vera á varðbergi gagnvart þeim áhrifum sem koma utan að og ógna íslenskunni. Ég vil af því tilefni sérstaklega vekja athygli þingmanna á því frumvarpi sem er núna til meðferðar hjá hv. menntamálanefnd, frumvarpi um Stofnun íslenskra fræða. Í því frumvarpi kemur m.a. fram, og í tengslum við Íslenska málnefnd, að hún muni eftir sem áður veita stjórnvöldum ráðgjöf um íslenska tungu. Síðan er nýmæli sem ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þingmanna á, þ.e. að semja íslenskar ritreglur en líka að gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu og álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Það er alveg ljóst að í tengslum við þetta frumvarp er hægt að blása til enn frekari sóknar fyrir íslenskuna og að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin ekki láta sitt eftir liggja hvað það varðar.