132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Álver í Helguvík.

[15:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Aldeilis er það dæmalaust að þurfa að hlusta á íslenskan ráðherra segja að staða gengismála sé eingöngu komin til vegna skuldabréfaútgáfu sem kom ekki inn á peningamarkaðinn fyrr en í september síðasta haust. Það er vitað að áhrif stóriðjuframkvæmdanna á gengið og gengismálin eru gríðarmikil. Mér virðist það greinilegt. Hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra ætti einnig að hafa heyrt aðra halda því fram, m.a. seðlabankastjóra.

Ráðherra vék sér undan að svara spurningu minni: Hvar standa álversframkvæmdir í Helguvík? Ráðherra segist hafa lesið um þær í blöðunum. Einn aðili að þeirri aðgerðaáætlun er Fjárfestingarstofa iðnaðarráðuneytisins, sem heyrir beint undir iðnaðarráðherra. Það er því með ólíkindum ef ráðherra getur vikið sér undan því og sagst bara lesa um þetta í blöðum.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að krefjast þess að ráðherra svari: Hvar stendur þetta mál? Hvar standa aðrir samningar við önnur fyrirtæki um stóriðju? Það er klárt (Forseti hringir.) að slíkar stóriðjuframkvæmdir kæmu til með að rústa þeirri (Forseti hringir.) yfirlýsingu sem áður hefur verið gefin um efnahagsmál.

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar tilmæli um að hv. þingmenn virði tímamörk.)