132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Umferðaröryggismál.

[15:33]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til samgönguráðherra. Hún snýr að umferðaröryggismálum sem hafa verið áberandi að undanförnu og ég held að verði meira áberandi í nánustu framtíð. Ég hef áður spurt samgönguráðherra út í þessi mál. Svör hans við þeim spurningum mínum hafa verið ánægjuleg og sýna að hæstv. ráðherra er vakandi í málaflokknum, sem er afskaplega mikilvægt. Ég er sannfærður um að samfara þeirri samgöngubyltingu sem staðið hefur yfir á undanförnum árum veitir okkur ekki af sambærilegu átaki í þessum málaflokki.

Fyrirspurn mín, virðulegi forseti, hljóðar svo:

Á síðasta ári undirrituðu Umferðarstofa og ríkislögreglustjóri samning um aukið hraðaeftirlit á skilgreindum svæðum á þjóðvegakerfinu. Það er samdóma álit manna að vel hafi tekist til í alla staði hvað það varðar. Þess vegna langar mig, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort ætlunin sé að halda áfram samstarfi á milli Umferðarstofu og ríkislögreglustjóra með það fyrir augum að byggja ofan á þann góða árangur sem náðist á síðasta ári. Hvernig verður staðið að því samstarfi?